Nasdaq CSD veitir eftirfarandi viðbótarþjónustu í tengslum við verðbréf sem eru frumskráð, tekin til skráningar eða flutt í uppgjörskerfi þess, eða sem ráðgert er að skrá í það:

 • aðstoð við afgreiðslu fyrirtækjaaðgerða,
 • þjónustu í tengslum við skráningu verðbréfaeigenda,
 • þjónustu við útgáfu (frumútboð o.s.frv.) verðbréfa sem útgefandinn hefur óskað eftir skráningu á, í hvaða uppgjörskerfi Nasdaq CSD sem er,
 • beining (e. routing) og vinnsla fyrirmæla, innheimta gjalda, vinnsla og upplýsingagjöf í tengslum við ofangreinda þjónustu,
 • veiting upplýsinga og gagna, þ.m.t. tölfræðilegra, í tengslum við ofangreint.

Nema reglur um fyrirtækjaaðgerðir heimili afgreiðslu ófullgerðra eða óstaðfestra upplýsinga um fyrirtækjaaðgerðir skal hvers kyns skuldbinding Nasdaq CSD til að afgreiða fyrirtækjaaðgerð sem hefur áhrif á verðbréf, og skuldbinding þess til að veita, framsenda eða birta upplýsingar eða gögn, þ.m.t. tölfræðileg, um slíka fyrirtækjaaðgerð, aðeins gilda að því marki sem Nasdaq CSD hefur fengið í hendur, á tímanlegan hátt, upplýsingarnar í heild sinni og, krefjist reglur Nasdaq CSD þess, gilda beiðni um afgreiðslu fyrirtækjaaðgerðarinnar (þ.e. umsókn útgefanda) auk stuðningsgagna frá útgefanda, umboðsaðila útgefanda (e. Issuer Agent) eða umsjónaraðila sjóðs (e. Fund Administrator) eða, sé um að ræða erlend verðbréf, viðkomandi samtengdri verðbréfamiðstöð.

Nasdaq CSD getur aðeins afgreitt eftirfarandi fyrirtækjaaðgerðir að fenginni beiðni útgefanda sem lögð er fram á stöðluðu umsóknareyðublaði, eða með öðrum hætti sem Nasdaq CSD samþykkir, og aðeins að því marki sem gildandi lög heimila viðkomandi fyrirtækjaaðgerð:

 • Endurskipulagningu að eigin ósk (t.d. skráningu nýrra hlutabréfa vegna hlutafjáraukningar),
 • Skyldubundna endurskipulagningu (t.d. skiptingu hluta (e. split) eða fækkun hluta (e. reverse split), innlausn),
 • Skyldubundna endurskipulagningu með valkostum (t.d. umbreyting bréfa  e. conversion),
 • Niðurfellingu hlutabréfa vegna hlutafjárlækkunar,
 • Aðra niðurfellingu verðbréfa, nema að því marki sem gildandi lög kveða á um annað,
 • Peningaútgreiðslur (t.d. vaxtagreiðslur, argreiðslur),
 • Útgreiðslur í formi verðbréfa (t.d. arðgreiðslur í formi hlutabréfa, útgáfa jöfnunarhluta),
 • Útgreiðslur með valkostum (t.d. valkvæð arðgreiðsla).