Þátttökuskilyrði Nasdaq CSD eru einföld, gagnsæ, hlutlæg og án mismununar. Þetta tryggir sanngjarnan og opinn aðgang að Nasdaq CSD, að teknu tilliti til áhættu í tengslum við fjármálastöðugleika og eðlilega virkni markaða í Eistlandi, Lettlandi, Litháen og á Íslandi, sbr. 1. mgr. 33. gr. ESB-reglugerðarinnar um bætt verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar („CSDR-reglugerðin“).

Þátttaka er opin öllum aðilum sem hafa starfsleyfi til að veita vörsluþjónustu eða lánastofnunarþjónustu í Eistlandi, Lettlandi, Litháen og/eða á Íslandi. Nasdaq CSD er þó heimilt að synja umsækjanda um aðgang á grundvelli ítarlegs mats á áhættuþáttum sem kveðið er á um í tæknilegum stöðlum á grundvelli CSDR-reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 33. gr. hennar.

Samkvæmt reglum Nasdaq CSD er þátttakandi í Nasdaq CSD lögaðili sem hefur rétt til þátttöku í einu eða fleiri uppgjörskerfum verðbréfamiðstöðvarinnar og gegnir einu eða fleiri af eftirfarandi hlutverkum:

 • reikningsstofnun,
 • umsjónaraðili reiðufjár (e. Cash Agent),
 • umboðsaðili útgefanda (e. Issuer Agent),
 • umsjónaraðili sjóðs (e. Fund Administrator).

Lögaðili sem sækir um þátttöku í einu eða fleiri uppgjörskerfa Nasdaq CSD og hefur eina eða fleiri af ofangreindum stöðum þarf að leggja fram umsókn á stöðluðu formi, auk stuðningsgagna. Nasdaq CSD tekur ákvörðun um hvort aðgangur er veittur innan eins mánaðar frá umsóknardegi.

Sé umsækjandi reikningsstofnun í Eistlandi, Lettlandi eða Litháen þarf hann að vera þátttakandi í T2 stórgreiðslukerfinu eða hafa gert samning við umsjónaraðila reiðufjár um tilhögun peningauppgjörs.

Sé umsækjandi reikningsstofnun á Íslandi þarf hann annaðhvort að vera umboðsaðili reiðufjár og aðili að stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands eða hafa gert samning við slíkan umsjónaraðila reiðufjár.

Sé umsækjandi umboðsaðili reiðufjár í Eistlandi, Lettlandi eða Litháen þarf hann að vera þátttakandi í T2 stórgreiðslukerfinu.

Sé umsækjandi umboðsaðili útgefanda eða umsjónaraðili sjóðs þarf hann að hafa gert alla nauðsynlega samninga við útgefandann sem hann sækir um að verða umboðsaðili útgefanda eða umsjónaraðili sjóðs fyrir, auk þess að uppfylla þau skráningarskilyrði sem gilda um reikningsstofnanir.

Engin tímaáætlun gildir um reglulega endurskoðun aðgangsskilyrða. Núverandi kerfi endurspeglar þær kröfur sem 33. gr. CSDR-reglugerðarinnar kveður á um og tryggir sanngjarnan og opinn aðgang að Nasdaq CSD, að teknu tilhlýðilegu tilliti til fjármálastöðugleika og eðlilegrar virkni markaða. Notendanefnd hvers uppgjörskerfis hefur rétt á að koma sjónarmiðum sínum um þátttökuskilyrði viðkomandi kerfis á framfæri við eftirlitsstjórn Nasdaq CSD.

Nasdaq CSD er heimilt að óska eftir hvers kyns viðbótarupplýsingum og -gögnum innan 15 virkra daga frá umsóknardegi ef:

 • upplýsingar í umsókninni eða stuðningsgögnum eru rangar, misvísandi eða ófullgerðar,
 • viðbótarupplýsingar eða -gögn eru nauðsynleg til að meta hvort umsækjandi fullnægir kröfum og skráningarskilyrðum sem reglur Nasdaq CSD kveða á um,
 • viðbótarupplýsingar eða -gögn eru nauðsynleg fyrir ítarlegt áhættumat.

Sölu- og þjónustudeild Nasdaq CSD metur umsóknir og stuðningsgögn. Ákvarðanir um að veita eða synja þátttakanda um tiltekna stöðu eru háðar samþykki framkvæmdastjórnar Nasdaq CSD.

Þjónusta við reikningsstofnanir 

Þátttakandi í Nasdaq CSD sem hefur starfsleyfi sem reikningsstofnun ber ábyrgð á eftirfarandi:

 • uppsetningu og starfrækslu verðbréfareikninga í kerfi Nasdaq CSD,
 • samskiptum við viðskiptavini sína og því að fara að kröfum um að afla fullnægjandi upplýsinga um þá (e. know your customer eða KYC) og öðrum tengdum kröfum,
 • að miðla uppgjörsfyrirmælum og fyrirmælum um fyrirtækjaaðgerðir til Nasdaq CSD, þ.e. að senda uppgjörsfyrirmæli, fyrirmæli um breytingar og afturkallanir í kerfið og fá endurgjöf um þessi fyrirmæli frá kerfinu í formi stöðuuppfærslna og staðfestinga,
 • framkvæmd uppgjörs í formi peningagreiðslna eða afhendingar verðbréfa á grundvelli uppgjörsfyrirmæla sem send eru Nasdaq CSD. Skipaður umsjónaraðili reiðufjár hefur með höndum að tryggja peningauppgjör í Nasdaq CSD;
 • að halda utan um og fylgjast með skuldbindingum viðskiptavina sinna til uppgjörs í peningum og verðbréfum í Nasdaq CSD,
 • skráningu, breytingum á og afléttingu veðsetningar,
 • að ganga úr skugga um og staðfesta að upplýsingar sem veittar eru Nasdaq CSD séu réttar.

Aðgangur reikningsstofnunnar að einstökum starfsþáttum getur verið aðgreindur til að tryggja að eigin starfsemi hennar og sú starfsemi hennar sem snýr að þjónustu sé óháð hvor annarri. Með öðrum orðum kann aðgangur að vissum tegundum upplýsinga að vera takmarkaður með því að úthluta aðeins þeim starfsþáttum á notandaaðganginn sem varða beint viðkomandi reikningsstofnun.