Skráning verðbréfa tryggir að eignarréttindi hluthafa séu framfylgjanleg og eykur öryggi í umferð bréfanna sem og traust fjárfesta, samstarfsaðila og fjármálastofnana.

Nasdaq CSD skráir verðbréfaútgáfur rafrænt og úthlutar hverri útgáfu ISIN-númeri (alþjóðlegu auðkennisnúmeri). Sem opinber skráningarstofnun auðkennisnúmera í starfslöndum sínum úthlutar Nasdaq CSD ISIN-númerum fyrir fjármálagerninga sem eru gefnir út í Eistlandi, Lettlandi, Litháen og á Íslandi.

Eftirfarandi fjármálagerningar og réttindi eru skráanleg hjá Nasdaq CSD: hlutabréf, skuldabréf, sjóðir, réttindi, áskriftarréttindi og valréttir. Skráningu annarra fjármálagerninga er unnt að bæta við, sé næg eftirspurn fyrir því meðal viðskiptavina.

Nasdaq CSD annast frumskráningu verðbréfa og töku þeirra í uppgjörskerfi að vali útgefanda. Verðbréfin þurfa að fullnægja eftirfarandi skilyrðum:

 • lögin sem bréfin eru stofnuð samkvæmt heimili rafræna skráningu þeirra að lokinni beinni útgáfu á því formi,
 • lögin sem bréfin eru stofnuð samkvæmt banni ekki að þau séu gefin út með gildum hætti og færð í uppgjörskerfið sem sótt er um skráningu í,
 • öll verðbréf í sömu útgáfu séu jafngeng (e. fungible),
 • skráning verðbréfanna fullnægi kröfum laga sem gilda um uppgjörskerfið sem sótt er um skráningu í.

Almenna reglan er sú að Nasdaq CSD tekur við verðbréfum í „heimauppgjörskerfi“ viðkomandi útgefanda:

 • Hlutabréf fyrirtækja sem skráð eru í Eistlandi og önnur verðbréf sem lúta eistneskum lögum eru skráð í eistneska uppgjörskerfið.
 • Hlutabréf fyrirtækja sem skráð eru á Íslandi og önnur verðbréf sem lúta íslenskum lögum eru skráð í íslenska uppgjörskerfið.
 • Hlutabréf fyrirtækja sem skráð eru í Lettlandi og önnur verðbréf sem lúta lettneskum lögum eru skráð í lettneska uppgjörskerfið.
 • Hlutabréf fyrirtækja sem skráð eru í Litháen og önnur verðbréf sem lúta litháískum lögum eru skráð í litháíska uppgjörskerfið.

Einnig getur Nasdaq CSD tekið til skráningar verðbréf erlends útgefanda sem sækist eftir því að nýta sér útgáfufrelsið – þ.e. útgefanda með starfsemi sína skráða í annarri lögsögu en þeirra uppgjörskerfa sem sótt er um frumskráningu bréfanna í – að því tilskildu að hann fullnægi skráningarskilyrðum.

Skráning hlutabréfa einkahlutafélags í Nasdaq CSD er valkvæð. Einkahlutafélag sem skráir hlutabréf sín losnar við að ganga í gegnum það lögbókunarferli sem fylgir annars hlutabréfum og við að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja eigendum sínum hlutlausa og örugga skrásetningu bréfanna.

Skráningarferli

Lögaðili sem sækir um að gefa út verðbréf í einu eða fleiri uppgjörskerfum Nasdaq CSD þarf að leggja fram staðlaða umsókn og stuðningsgögn. Að umsókn móttekinni ákveður Nasdaq CSD hvort frumskrá eigi verðbréfin og færa þau í uppgjörskerfið sem útgefandinn tilgreinir. Sú ákvörðun er tekin innan þriggja mánaða, eða fyrr ef gildandi lög krefjast þess.

Nasdaq CSD er heimilt að óska eftir viðbótarupplýsingum og -skjölum innan 15 virkra daga frá umsóknardegi ef:

 • Upplýsingar í umsókninni eða stuðningsgögnum eru rangar, misvísandi eða ófullgerðar,
 • Viðbótarupplýsingar eða -gögn eru nauðsynleg til að meta hvort umsækjandi fullnægir kröfum og skráningarskilyrðum,
 • Viðbótarupplýsingar eða -gögn eru nauðsynleg fyrir ítarlegt áhættumat í samræmi við 3. mgr. 49. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014.

Sæki erlendur útgefandi um skráningu er Nasdaq CSD heimilt að fara fram á að hann útvegi, á eigin kostnað, rökstutt og óháð lögfræðiálit áreiðanlegrar lögmannsstofu eða áreiðanlegs lögmanns á formi, og sem hafi að geyma efni, sem Nasdaq CSD fellst á, og sem sýni fram á að möguleg álitaefni um lagaskil myndu ekki stefna uppfyllingu skráningarskilyrða í tvísýnu.

Skráning hlutabréfa

Gögn sem útgefendum hlutabréfa ber að afhenda Nasdaq CSD:

 • umsókn um skráningu hlutabréfa,
 • félagssamþykktir,
 • fundargerð félagsins sem sýnir fram á þá ákvörðun að sækja um skráningu bréfanna,
 • sýni af undirskrift prókúruhafa, sé rafræn undirritun ekki valkostur,
 • hluthafaskrá,
 • stofnsamningur eða vottað afrit fundargerðar stofnfundar ,
 • Hafi hlutabréfin verið veðsett og um er að ræða félag með takmarkaða ábyrgð þarf að leggja fram samsvarandi umsókn til skráningar þeirra.

Listinn yfir gögn sem afhenda þarf Nasdaq CSD getur verið breytilegur og háður sértækum kröfum viðkomandi uppgjörskerfis Nasdaq CSD.

Öll umsóknareyðublöð (á ensku og íslensku) er að finna hér.

Að gögnunum mótteknum metur Nasdaq CSD hvort þau fullnægja kröfum. Sé niðurstaða þess mats jákvæð framkvæmir Nasdaq CSD nauðsynlegar skráningar innan fimm virkra daga.

Skráningarumsókn og viðbótargögn má leggja fram hjá Nasdaq CSD:

 • með tölvupósti með rafrænni undirskrift,
 • með bréfpósti,
 • á skrifstofum Nasdaq CSD í hverju landi.

Afskráning hlutabréfa

Hlutabréf félags sem færð hafa verið í skrána verða afmáð úr henni við:

 • slit félagsins að lokinni skiptameðferð eða gjaldþrotaskiptum,
 • slit félagsins vegna samruna eða skiptingar,
 • umbreytingu hlutafélags í einkahlutafélag, en þá skal afmá hlutabréf einkahlutafélagsins úr skránni að beiðni útgefanda,
 • ákvörðun hluthafanna um að afskrá hlutabréfin, hafi þau ekki verið veðsett.

Afskráningarferlið hefst áður en slík umsókn er send fyrirtækjaskrá, en hlutabréfin eru afmáð af verðbréfareikningunum þegar breytingin hefur verið skráð í fyrirtækjaskrá.

Afskráningarferlið getur verið breytilegt eftir lögum í viðkomandi landi og er háð sértækum kröfum viðkomandi uppgjörskerfis Nasdaq CSD.

 Skráning skuldabréfa
Til að skrá skuldabréf hjá Nasdaq CSD verður skráning þeirra í miðlægu skrána að vera tilgreind í skilmálum útgáfunnar. Skráning skuldabréfa auðveldar utanumhald þeirra fyrir félagið.

Skráning skuldabréfa í miðlægu skrána auðveldar viðkomandi félagi einnig að fá bankalán. Auk þess tryggir hún fjárfestum örugga og áreiðanlega skráningu eignarhalds bréfanna, auðveldar kaup og sölu þeirra og gerir þau tiltæk til veðsetningar fyrir lánum eða öðrum skuldbindingum.

Til að skrá skuldabréf sín verður viðkomandi félag að afhenda Nasdaq CSD eftirfarandi:

 • umsókn um skráningu bréfanna,
 • lista yfir fjárfesta, þ.m.t. númer verðbréfareikninga þeirra,
 • félagssamþykktir útgefanda,
 • sé um að ræða skráningu almenns útboðs bréfanna, vottað afrit af skráningarvottorði  útgáfunnar, þ.m.t. útgáfulýsingu eða skilmálum útgáfu bréfanna,
 • firmaheiti og skráningarkóða/-númer  umsjónaraðila greiðslna (e. paying agent) vegna viðkomandi útgáfu, liggi ákvörðun fyrir um slíkan aðila,
 • skilmála útgáfunnar.

Listinn yfir gögn sem afhenda þarf Nasdaq CSD getur verið breytilegur og háður sértækum kröfum viðkomandi uppgjörskerfis Nasdaq CSD.

Þegar rétt útfyllt gögn hafa verið lögð fram framkvæmir Nasdaq CSD nauðsynlegar færslur í miðlægu skrána og bréfin eru flutt á verðbréfareikninga fjárfestanna innan fimm virkra daga. Auk þess þarf útgefandinn að sækja um ISIN-númer fyrir bréfin, sem Nasdaq CSD úthlutar áður en þau eru skráð.

Innlausn skuldabréfa

Skuldabréf falla úr gildi á innlausnardegi , þegar félagið kaupir skuldabréfin til baka og innlausnargreiðslur eru inntar af hendi til fjárfestanna. Á innlausnardegi eru skuldabréfin afmáð úr verðbréfareikningum fjárfestanna.

Til að fella niður skuldabréf þarf útgefandi þeirra að afhenda Nasdaq CSD eftirfarandi:

 • beiðni um innlausn skuldabréfa úr skránni,
 • lista yfir fjárfesta, sé um að ræða innlausn bréfanna að hluta. Á fjárfestalistann skal skrá nafn eiganda skuldabréfsins, kennitölu/skráningarkóða, númer verðbréfareiknings og fjölda bréfa sem skal afmá;
 • aðrar sérstakar leiðbeiningar.

Nasdaq CSD afmáir verðbréf af verðbréfareikningum fjárfesta innan tveggja virkra daga frá móttöku slíkrar beiðni, nema í henni sé óskað eftir síðari dagsetningu.

Niðurfellingarferlið getur verið breytilegt eftir lögum og venjum í viðkomandi landi og er háð sértækum kröfum viðkomandi uppgjörskerfis Nasdaq CSD.

Skuldbindingar skráðra fyrirtækja

Þegar hlutabréf hafa verið skráð hjá Nasdaq CSD ber útgefanda að tilkynna Nasdaq CSD sem skráarhaldara um öll atvik sem varða breytingar á réttindum og skuldbindingum í tengslum við hin útgefnu bréf. Aðstæður sem tilkynna skal um eru eftirfarandi:

 • hækkun/lækkun nafnverðs,
 • breytingar á hlutafé,
 • samruni,
 • endurskipulagning,
 • útgáfa sjóðs,
 • breytingar á skilmálum útgáfu,
 • greiðslur af hlutabréfum,
 • samþykkt útgefanda um félagsslit eða gjaldþrotaskipti,
 • breytingar í stjórnendahópi,
 • breyting á nafni fyrirtækis,
 • breytingar á samskiptaupplýsingum fyrirtækis (s.s. símanúmerum, netföngum og heimilisföngum).