Nasdaq CSD starfrækir fjögur verðbréfauppgjörskerfi í fjórum mismunandi löndum: Eistlandi, Lettlandi, Litháen og á Íslandi.

Útvistun pörunar- og uppgjörsþjónustu til samevrópska TARGET2-Securities verðbréfauppgjörskerfisins (T2S) gegnum eistneska, lettneska og litháíska kerfið fer fram gegnum eitt og sama upplýsingatæknikerfið, sem býður upp á sama verklag fyrir þau öll. Íslenska verðbréfauppgjörskerfið hefur verið sameinað þessu upplýsingatæknikerfi og býður upp á verðbréfauppgjör þar sem peningahlutinn er gerður upp í Seðlabanka Íslands.

Rekstrarreikningur (e. operational account) þátttakanda í kerfi verðbréfamiðstöðvar sýnir á samræmdu formi stöðu allra lögformlegra  reikninga (e. legal accounts) sem tengjast þátttakandanum í einu eða fleiri verðbréfauppgjörskerfum. Nasdaq CSD býður upp á ýmsar samsetningar lögformlegra reikninga sem gera uppgjörskerfunum kleift að mynda stakan rekstrarreikning, sem getur aðeins samanstaðið af samsafni lögformlegra reikninga af einni og sömu tegund: aðgreindum safnreikningum (e. segregated nominee accounts), safnreikningum eða eigandareikningum (e. owner accounts). Aðeins lögformlegur reikningur þátttakanda í verðbréfauppgjörskerfi stofnar lagaleg réttindi hans að verðbréfi, hvort sem um er að ræða beina eignarskráningu eða vörslurétt fyrir hönd viðskiptavinar.

Hver lögformlegur reikningur tengist aðeins einum rekstrarreikningi í sama flokki. Lögformlegur reikningur er auðkenndur með:

  • Reikningsnúmeri viðkomandi rekstrarreiknings og
  • ISIN-númeri viðkomandi verðbréfs á þeim reikningi (ISIN-númerið er notað til að tengja verðbréfið við lögformlega reikninginn í eistneska, lettneska, litháíska eða íslenska uppgjörskerfinu). Uppgjör millifærslna á verðbréfum í verðbréfauppgjörskerfi fer fram í samræmi við þau lög sem gilda um uppgjörskerfið sem viðkomandi lögformlegur reikningur tilheyrir.

Þátttakandi í Nasdaq CSD getur haft eistneska, lettneska, litháíska og íslenska gerninga á rekstrarreikningi sínum, sem verður þá að samanstanda af fjórum lögformlegum reikningum – einum fyrir hvert verðbréfauppgjörskerfi.

Rekstrarlega felur hver rekstrarreikningur í eistneska, lettneska og litháíska uppgjörskerfinu í sér einn reikning í T2S. Allar T2S-hæfar verðbréfauppgjörsfærslur sem framkvæmdar eru í uppgjörskerfi eins landsins gegnum rekstrarreikning eru gerðar upp í T2S. Til að uppfylla lögformlegar kröfur og tryggja endanleika uppgjörs eru allar stöður í verðbréfum á rekstrarreikningum (með eistneskum, lettneskum, litháískum og íslenskum ISIN-númerum) skráðar á lögformlega reikninga í viðkomandi verðbréfauppgjörskerfi.