Nasdaq CSD veitir eftirfarandi þjónustu gegnum uppgjörskerfi sín:

  • uppgjör kauphallarviðskipta,
  • pörun OTC-viðskipta,
  • uppgjör viðskipta án greiðslu (OTC FoP),
  • uppgjör viðskipta með afhendingu gegn greiðslu (OTC DvP),
  • uppgjör kauphallar- og OTC-viðskipta yfir landamæri gegnum samtengingu verðbréfamiðstöðva.

Nasdaq CSD framkvæmir uppgjörsfyrirmæli reikningshafa aðeins ef viðkomandi reikningsstofnanir hafa fullnægt öllum kröfum sem reglur og notandahandbók (e. Operating Manual) Nasdaq CSD kveða á um.

Kerfi Nasdaq CSD er hannað til að þjóna starfsemi Nasdaq CSD bæði innan og utan TARGET2-Securities (T2S), sem er samevrópskt kerfi til verðbréfauppgjörs í seðlabankapeningum. Pörun og uppgjör eru útvistuð til T2S þegar um er að ræða T2S-hæf verðbréf en annars afgreidd innan kerfis Nasdaq CSD. Útvistun pörunar og uppgjörs til T2S gegnum eistneska, lettneska og litháíska uppgjörskerfið fer fram gegnum eitt og sama upplýsingatæknikerfið, með sama verklagi fyrir öll uppgjörskerfin.

Nasdaq CSD er aðili að T2S-rammasamningnum (e. T2S Framework Agreement eða FWA). Því veitir fyrirtækið uppgjörsþjónustu fyrir T2S-hæf verðbréf í samræmi við rammasamninginn og reglur T2S. Þetta felur í sér að allir verðbréfareikningar í uppgjörskerfum Nasdaq CSD og stöður á þeim skuli vera í T2S-kerfinu, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Nasdaq CSD annast uppgjör peningahluta DvP-viðskipta (afhendingar gegn greiðslu) og útgreiðslur vegna fyrirtækjaaðgerða eingöngu í evrum í seðlabankapeningum. Peningahluti DvP-viðskipta með T2S-hæf verðbréf er gerður upp gegnum sérstaka peningareikninga (e. Dedicated Cash Accounts eða DCAs) hjá greiðslubönkum í T2S. Peningahluti DvP-viðskipta með verðbréf sem ekki eru T2S-hæf er gerður upp gegnum peningareikning í T2, sem er stórgreiðslukerfið sem evrukerfið (e. Eurosystem) á og starfrækir.

Verðbréf sem eru skráð í íslenska uppgjörskerfið eru ekki T2S-hæf. Uppgjör íslenskra verðbréfa er því afgreitt í kerfi Nasdaq CSD. Peningahluti DvP-viðskipta og útgreiðslur vegna fyrirtækjaaðgerða í íslenskum krónum fara fram gegnum sérstaka CSD LOM-reikninga í eigu þátttakenda í stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands.