Á meðal upplýsinga um áhættumat á þessu vefsetri skv. 5. mgr. 34. gr. reglugerðar (EB) nr. 909/2014 (CSDR) eru:

1) þjónustulýsing Nasdaq CSD,

2) reglur Nasdaq CSD,

3) CPMI ISCO-sjálfsmat Nasdaq CSD,

4) lýsing mismunandi stiga aðgreiningar sem Nasdaq CSD býður upp á í verðbréfauppgjörskerfum sínum í Eistlandi, Lettlandi, Litháen og á Íslandi:

mismunandi aðgreiningarstig í eistneska uppgjörskerfinu,

mismunandi aðgreiningarstig í íslenska uppgjörskerfinu,

mismunandi aðgreiningarstig í lettneska uppgjörskerfinu,

mismunandi aðgreiningarstig í litháíska uppgjörskerfinu,

5) tæknileg gögn, sum aðgengileg þátttakendum gegnum aðgangssvæði sem krefst lykilorðs.

Auk þess geta þátttakendur óskað eftir eftirfarandi gögnum með því að senda tölvupóst á csd@nasdaq.com:

1) samtengingarsamningum sem Nasdaq CSD gerir,

2) svörum við  spurningalistum til áhættumats frá mótaðilum samtengingarfyrirkomulags,

3) lögfræðiálitum um uppgjörskerfi Nasdaq CSD (lagalegt eðli réttinda, vernd veðtrygginga, ábyrgð verðbréfamiðstöðvar og endanleika uppgjörs).

Nasdaq CSD ábyrgist ekki að notkun á þjónustu sinni sé án upplýsingatækniáhættu, lagalegrar áhættu eða annarrar áhættu. Sér í lagi ábyrgist Nasdaq CSD ekki að þjónusta sín sé algjörlega án truflana.

Upplýsingatækniáhætta og rekstraráhætta

Þjónusta Nasdaq CSD sem verðbréfamiðstöðvar er mjög háð upplýsingatækni, þ. á m. nauðsynlegum innviðum, s.s. kerfum Nasdaq CSD, T2S-uppgjörskerfinu og tengdum netlausnum og þjónustu. Ekki er unnt að útiloka tímabundna truflun eða ótiltækileika þjónustu vegna aðstæðna sem ekki eru á valdi Nasdaq CSD, hvað sem líður ráðstöfunum fyrirtækisins í þágu upplýsingatækniöryggis og til að lágmarka áhættu.

Lagaleg áhætta

Vegna landfræðilegrar dreifingar á starfsemi Nasdaq CSD geta ESB-lög (einkum I. og II. bálkur CSDR-reglugerðarinnar) og landslög ýmissa aðildarríkja EES (einkum Eistlands, Lettlands, Litháens og Íslands) gilt um þjónustu fyrirtækisins og réttindi hagsmunaaðila, þ. á m. þátttakenda og fjárfesta. Þótt rekstrarlíkan og reglur Nasdaq CSD miði að því að lágmarka alla lagalega áhættu, þ.m.t. í tengslum við lagaskil, er ekki unnt að ábyrgjast nokkuð er varðar aðstæður sem lög kveða ekki á um með skýrum hætti eða þar sem afleiðingar eða áhrif þeirra eru óljós. Við mat á lagalegri áhættu þarf að hafa í huga að lagabreytingar á grundvelli CSDR-reglugerðarinnar eru mjög nýtilkomnar.

Sérstakan gaum þarf að gefa að takmörkun ábyrgðar skv. ákvæði 2.11 í I. kafla reglna Nasdaq CSD þegar verðbréfamiðstöðvarþjónusta Nasdaq CSD er notuð eða fyrirhugað er að nota hana.

Uppgjörsstarfsemi

Almennt

Undir vernd ESB-tilskipunarinnar um endanlegt uppgjör (e. Settlement Finality Directive eða SFD), sem innleidd er í eistnesk, lettnesk, litháísk og íslensk lög, skilgreina reglur Nasdaq CSD með skýrum hætti tímapunkta endanlegs uppgjörs, sem nefnast SF I, SF II og SF III.

T2S-uppgjörskerfið

Þættir er varða endanlegt uppgjör vegna fyrirmæla sem gerð eru upp í T2S-uppgjörskerfinu („T2S-fyrirmæla“) lúta m.a. ákvæðum heildarsamninga milli evrukerfisins (e. Eurosystem) og verðbréfamiðstöðva sem eru aðilar að T2S-rammasamningnum (e. T2S Framework Agreement eða „FWA“).

Áhættumat T2S-fyrirmæla og tengdra uppgjörsaðgerða ræðst einnig af T2S-ferlum og tengdum þáttum (DvP-uppgjör í seðlabankapeningum gegnum sérstaka peningareikninga (e. Dedicated Cash Accounts eða DCAs) sé um að ræða afhendingu gegn greiðslu (DvP), tæknileg greiðslujöfnun (nettun) með bestun) sem er beitt eða eru gerðir aðgengilegir í samræmi við reglur T2S og reglur Nasdaq CSD.

Uppgjörsþjónusta í Bandaríkjadölum

Þátttakendum sem nota eða hafa í hyggju að nota uppgjörsþjónustu í Bandaríkjadölum („USD-uppgjörsþjónustu“) sem veitt er gegnum lettneska uppgjörskerfið er bent á að íhuga eftirfarandi þætti vandlega.

Eftirfarandi tilhögun og ráðstöfunum er ætlað að draga úr eða stýra áhættu sem stafar af USD-uppgjörsþjónustu:

  • krafa um forfjármögnun þátttakenda á peningahluta uppgjörs með greiðslu til USD-peningareikningsveitanda  Nasdaq CSD,
  • beiting stórgreiðslukerfisaðferðar (í stað  nettunar),
  • beiting sérstaks verklags sem T2S styður (skilyrt uppgjör í T2S),
  • engar innstæður yfir nótt á USD-peningareikningi Nasdaq CSD,
  • val á USD-peningareikningsveitanda Nasdaq CSD – verðbréfamiðstöðinni ber að notast eingöngu við lánastofnanir með tilskilið starfsleyfi,
  • ákvæði um takmörkun ábyrgðar í reglum Nasdaq CSD (sjá ákvæði 2.11.5 í I. kafla reglnanna).

Ofangreind tilhögun og ráðstafanir draga úr rekstraráhættu Nasdaq CSD (t.d. líkum á villum við framkvæmd verðbréfahluta uppgjörs).

Uppgjör í USD felur í sér eftirfarandi greiðslufalls- og gjaldþrotsáhættu fyrir þátttakendur:

1) Gjaldþrot eða ógjaldfærni USD-peningareikningsveitanda Nasdaq CSD

Við slíkar aðstæður yrði Nasdaq CSD ókleift að gera upp peningahlutann, enda væri þá ekki unnt að millifæra peningana af USD-reikningi þess (hjá USD-peningareikningsveitandanum) til umsjónaraðila reiðufjár hjá viðtakandanum. Athuga ber að Nasdaq CSD gengst ekki í ábyrgð fyrir fé sem fært er á slíkan reikning (sjá ákvæði 2.11.5* í I. kafla reglnanna).

Þátttakendur þurfa því að fylgjast með og meta áhættumynd USD-peningareikningsveitanda Nasdaq CSD á eigin ábyrgð. Þátttakendum stendur til boða að hætta notkun þjónustunnar ef lánshæfiseinkunn eða aðrir slíkir þættir sem varða USD-peningareikningsveitanda Nasdaq CSD versna að því marki að viðmið þátttakandans um áhættuvilja sinn eru ekki lengur uppfyllt.

2) Gjaldþrot eða ógjaldfærni umsjónaraðila reiðufjár hjá þátttakanda sem er viðtakandi

Við slíkar aðstæður yrði viðtakanda peninganna ókleift að innheimta þá óháð því hvort Nasdaq CSD framkvæmdi uppgjörið (þ.m.t. lokaskrefið, sem er svonefnt fjársóp (e. cash sweep) af USD-peningareikningi Nasdaq CSD).

Nasdaq CSD telur þennan áhættuþátt vera alfarið á ábyrgð þátttakandans, enda sé honum frjálst að velja og endurmeta viðkomandi umsjónaraðila reiðufjár út frá eigin áhættustýringarviðmiðum um slíkan aðila og allar aðrar lánastofnanir í innheimtukeðju sinni.

Alþjóðleg uppgjörsþjónusta

Þátttakendum sem nota, eða hafa í hyggju að nota, alþjóðlega uppgjörsþjónustu (samtengingar verðbréfamiðstöðva) sem Nasdaq CSD veitir sem verðbréfamiðstöðin fjárfestismegin (e. investor CSD) er bent á að hafa hugfast að verðbréfaeign gegnum Nasdaq CSD hjá verðbréfamiðstöð útgefandamegin (e. issuer CSD) lýtur samtengingarsamningi milli Nasdaq CSD og verðbréfamiðstöðvarinnar útgefandamegin og reglum Nasdaq CSD, þ.m.t. ákvæði 2.11.4 í I. kafla reglnanna, sem fjallar um takmörkun ábyrgðar.